Jón Axel Pétursson hefur látið að störfum sem framkvæmdastjóri Ísey. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Í kjölfar skipulagsbreytinga sem stjórn MS hefur ákveðið hef ég látið af störfum sem framkvæmdastjóri Ísey og áður framkvæmdastjóri Sölu og markaðssvðs MS. Ég hef unnið í 20 ár fyrir fyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda og ávallt líkað vel að vinna í þágu þeirra og hagsmuna þeirra. Á þessum tímamótum er mér fyrst og fremst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að vinna með öllu því góða fólki sem hefur unnið með mér að öflugri uppbyggingu og útbreiðslu Ísey skyr vörumerkisins á Alþjóðlegum mörkuðum. Þegar ég tók við útflutningsstarfsemi MS árið 2010 var skyr selt til tveggja landa og veltan mjög takmörkuð. Þegar ég skil við sáttur eftir mjög skemmtileg og öflug uppbyggingarár hleypur salan á þúsundum tonna og sameiginleg velta okkar og samstarfsaðila á tugum milljarða," segir Jón Axel í tilkynningu.

„Ísey skyr og skyr selt af samstarfsaðilum okkar er nú selt á 16 mörkuðum og brátt munu Japan, Nýja Sjálland og Ástralía bætast við. Aukningin á undaförnum árum hefur verið mikil og það hefur komið afkomu MS fyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda vel. Það er ljóst að svona árangur næst ekki nema með öflugu og góðu samstarfsfólki og réttum samstarfsaðilum. Ég kveð þetta góða samstarfsfólk mitt sem ég hef lært mikið af með þakklæti í huga og óska eftirmanni mínum Ara Edwald góðs gengis með áframhaldandi uppbyggingu Ísey til framtíðar."