Fjárbakki ehf., er nýr eigandi Eddu útgáfu hf. og var samkomulag um kaupin gert í lok desember síðastliðinn.  Fjárbakki ehf., er fjölskyldufyrirtæki og í eigu bræðranna Jóns Axel Ólafssonar og Jóhanns Garðars Ólafssonar,

Í tilkynningu kemur fram að Edda útgáfa hf. er önnur stærsta útgáfa landsins með bókaklúbba og almenna útgáfu sem kjarnastarfsemi. Edda er útgefandi Disney bóka og blaða á Íslandi og hefur yfirburða markaðsstöðu á sínu sviði.

Fjárbakki ehf. hyggur á fjárhagslega endurskipulagningu á rekstri og skuldastöðu Eddu útgáfu, auk þess sem félaginu verða sett ný markmið og stefna í framhaldi af breyttu eignarhaldi.  Þrátt fyrir erfið ytri efnahagsleg skilyrði og þunga skuldastöðu félagsins er almennur rekstur Eddu traustur og góður segir í tilkynningu.   Þar kemur einnig fram að síðustu vikur og mánuði hefur verið unnið að gerð nýrra áætlana sem byggja á samvinnu nýrra eigenda og kröfuhafa við endurskipulagningu félagsins. 9 starfsmenn vinna í fullu starfi hjá Eddu og framkvæmdastjóri er Vilborg Jónsdóttir.