Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, hefur verið ráðinn stundakennari við Viðskiptaháskólann á Bifröst, segir í fréttatilkynningu.

Í haust mun hann kenna í nýju meistaranámi í Evrópufræðum en frá sumri 2006 býður Viðskiptaháskólinn á Bifröst í fyrsta sinn á Íslandi upp á nám til MA gráðu í Evrópufræðum (e. MA in European Studies).

Jón Baldvin mun ásamt Eiríki Bergmann Einarssyni, dósent, kenna námskeiðið Ísland í evrópsku samstarfi og mun þar meðal annars ræða reynsluna af því að semja við Evrópusambandið um hið evrópska efnahagssvæði.

Í námskeiðinu er skoðað með hvaða hætti Ísland tengist nú þegar samrunaþróun Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og Schengen-landamærasamstarfið. Meðal annars eru möguleikar Íslendinga í samstarfsáætlunum ESB, svo sem á sviði vísinda, mennta og menningarmála til skoðunar. Þá er farin námsferð til Brussel þar sem sendiráð Íslands og stofnanir EFTA, ESB og NATO eru heimsóttar.