Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins segir að forysta Samfylkingarinnar ætti að hætta og hann vill að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra taki við sem formaður af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Gefi Jóhanna ekki kost á sér muni hann sjálfur bjóða sig fram gegn Ingibjörgu Sólrúnu. Jóhanna segir að ekki standi til að hún gefi kost á sér til formanns. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Samkvæmt þessu stefnir í að Jón Baldvin Hannibalsson muni bjóða sig fram gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formanni Samfylkingarinnar gefi hún kost á sér til endurkjörs. Ingibjörg Sólrún hefur ekki gefið út hvort hún verður í endurkjöri á næsta landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn verður dagana 26.-29. mars.

Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður flokksins hefur sagt að hann muni hvorki gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku né til varaformennsku. Árni Páll Árnason þingmaður flokksins hefur lýst yfir framboði til varaformanns.