Controlant hefur ráðið Jón Birgi Gunnarsson sem rekstrarstjóra félagsins. Jón Birgir mun gegna lykilhlutverki í stjórnunarteymi Controlant og stýra uppbyggingu sölu- og dreifikerfis félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Jón Birgir hefur víðtæka reynslu af stjórnun, stefnumótun sem og viðskiptastjórnun milli fyrirtækja (B2B) á alþjóðavetvangi. Síðastliðin átján ár hefur Jón Birgir starfað hjá Marel, síðast sem framkvæmdastjóri Fiskiðnaðarsviðs.

Aðspurður segist Jón Birgir hafa kynnt sér Controlant ítarlega og að hér sé um gífurlega spennandi fyrirtæki að ræða. Lausnir fyrirtækisins séu búnar að sanna sig og fái mjög jákvæða umfjöllun frá viðskiptavinum. Næsta áskorun snýst um að byggja upp sterkt alþjóðlegt sölu og dreifikerfi til að hámarka þá fjárfestingu sem sett hefur verið í vöruþróun.

„Það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá okkur í Controlant og ég hlakka til að taka þátt í að byggja ofan á það góða starf sem nú hefur þegar verið unnið,“ sagði Jón Birgir að lokum.

Controlant býður lausnir til eftirlits með viðkvæmum vörum svo sem matvælum og lyfjum. Hægt er að fylgjst með mikilvægum þáttum eins og hitastigi, raka og staðsetningu meðan á flutningi eða geymslu stendur. Öllum gögnum er safnað sjálfvirkt á gagnaský sem nýtist til skýrslugerðar, frávikagreininga sem og viðvörunnar ef gildi eru utan marka.

Heilstæð nálgun á viðfangsefnið hefur stýrt vöruþróun Controlant og þannig er fyrirtækið með eigin gagnaský, hugbúnað og vélbúnað til að leysa viðfangsefnin á auðveldan hátt fyrir viðskiptavini.

Controlant er ekki síst spennandi þar sem lausnir fyrirtækisins gefa tækifæri til að leggja af mörkum og nýta megin stefnur (mega trend). Helst ber að nefna minni sóun á viðkvæmum vörum, aukin skilvirkni í flutningum og þar með framlag til umhverfismála. Lausnir Controlant notast við gagnaský og nettengingu hlutanna (Internet of Things, IoT) sem er einnig í takt við megin stefnur.