„Okkar skoðun er að þetta séu afdráttarlaust góð tíðindi, enda hafa markaðir tekið þessum fréttum mjög jákvætt og erlendir greiningaraðilar sömuleiðis“ sagði Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Glitnis, um gjaldeyrisskiptasamning Seðlabankans við norræna seðlabanka, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þó að upphæðin nú sé ekki með beinum hætti næg til að slá á allar áhyggjur manna af því að Seðlabankinn hafi ekki yfir nægum tækjum og tólum að ráða til að styðja bankana þá eru þau skilaboð sem send eru með þessum aðgerðum, að erlendis séu menn tilbúnir að koma til aðstoðar, mjög sterk. Ef gjaldeyrissjóðurinn er einfaldlega stækkaður með lántöku þá felst ekki í því eins afdráttarlaus skilaboð um samstöðu. Einnig líta lánshæfismatsfyrirtækin þessar aðgerðir væntanlega jákvæðum augum þar sem ekki er verið að auka við skuldir ríkissjóðs með þeim.“

Jón Bjarki segir að hjá greiningardeild Glitnis búist menn við frekari aðgerðum á næstunni. „Okkur rennir í grun um að það séu áþekkar viðræður í gangi við Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka, en það eru stórir bankar sem gætu komið til aðstoðar með mjög myndarlegum hætti.“

Aðgerðir Seðlabankans nú hafa engan kostnað í för með sér séu lánalínurnar ekki nýttar, að sögn Jóns Bjarka. Nýti Seðlabankinn lánið greiðir hann umsamda vexti en tryggar lánalínur eru almennt mun ódýrari en bein lántaka.

Ólíklegt að lánin verði nýtt

„Í tilfelli Seðlabankans er ólíklegt að hann þurfi að nýta þessar línur. Þessar aðgerðir eru fyrst og fremst til þess fallnar að sýna fram á að bankinn hafi vilja og getu til að grípa til aðgerða ef þess þarf. Þetta er einnig mikilvægt skref á þeirri leið að tryggja að ríkið geti tekið erlent lán til að tryggja gjaldeyrisforðann á ásættanlegum kjörum.“

Skuldatryggingaálag ríkisins hefur lækkað um 40 punkta í morgun eftir að tilkynnt var um samning seðlabankanna.

„Þó að skipið sé ekki í höfn er þetta vissulega mikilvægur áfangi á þeirri leið að sýna og sanna að Seðlabankanum er full alvara með að tryggja fjármálastöðugleika hér á Íslandi og hann mun í náinni framtíð hafa öll þau tól og tæki sem til þess þarf. Þær áhyggjur manna af íslensku fjármálalífi sem heyrst hafa að undanförnu eru ekki á rökum reistar,“ segir Jón Bjarki.