Jón Bjarnason, fv. ráðherra, hefur sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna. Þetta var tilkynnt við upphaf þingfundar núna kl. 15. Hann mun sitja sem þingmaður utan flokka til loka kjörtímabilsins.

Jón segir í samtali við Viðskiptablaðið að úrsögn hans komi til eftir að honum var gert að víkja sem fulltrúi þingflokksins úr utanríkismálanefnd Alþingis. Sem kunnugt myndaði Jón nýlega meirihluta með stjórnarandstöðunni í nefndinni og í kjölfarið ályktaði sá meirihluti að réttast væri að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

„Það var ekki einhugur um það í þingflokknum að vísa mér úr nefndinni en það var samt meirihluti fyrir því,“ segir Jón í samtali við Viðskiptablaðið. Aðspurður um næstu skref segir hann þau óákveðin. Jón hafði áður tilkynnt að hann myndi ekki bjóða sig fram fyrir flokkinn í alþingiskosningunum í apríl.

Hann segir þó að innan VG sé enn mikil andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB og á það muni reyna innan flokksins fyrir kosningar.

„Stefna VG er góð en framkvæmd hennar er ábótavant,“ segir Jón.

Jón er fjórði þingmaðurinn sem gengur úr röðum Vinstri grænna á kjörtímabilinu. Áður höfðu þau Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason gengið úr þingflokknum.