Afstaða Jóns Bjarnasonar, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til aðildar landsins að Evrópusambandinu er ástæðan fyrir því að ákveðið hefur verið að taka hann úr ráðherraliðinu.

Þetta segir Jón í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í kjölfar hrókeringa á ríkisstjórninni í dag. Hann segir standa við persónulega sáttur upp frá borðin eftir árangursríkan ráðherraferil.

Jón segir það áhyggjuefni hvernig Steingrímur J. Sigfússon sem formaður VG hafi haldið á málum gagnvart samstarfsflokki sínum. Hann hlusti ekki á lýðræðislegar stofnanir og grasrót flokksins.

„Ég tel að með þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir sé enn og aftur höggvið stórt skarð í þann trúverðugleika sem VG hefur haft sem stjórnmálahreyfing. Okkur sem stöndum vaktina fyrir hugsjónir VG bíður mikið og erfitt verkefni endurreisnar. Þar mun ég ekki liggja á liði mínu og ég heiti á mitt stuðningsfólk að vinna að málefnum okkar og þeirri vinstristefnu sem hreyfing okkar hefur staðið fyrir allt frá stofnun. Á því þarf Vinstrihreyfingin grænt framboð og sá málstaður sem hún var stofnuð um nú meira á að halda en nokkru sinni,“ skrifar Jón.

Hann heldur áfram: „Einn af hornsteinum í stefnu VG er krafan um fullveldi Íslands og þar með afdráttarlaus andstaða við aðild að ESB. Við myndun meirihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009 var um það samið milli flokkanna að virða skyldi ólíkar áherslur í þessu deilumáli. Atburðarásin sem síðan hefur átt sér stað sýnir okkur að þar fylgdi ekki hugur máli hjá þeim sem ötulast berjast fyrir aðild að ESB. Nú er svo komið að þrír af þingmönnum VG hafa gengið út og mér sem ráðherra er vikið úr embætti fyrir að vilja gæta vel að hagsmunum Íslands í þessum málum [...] Án efa mun brotthvarf mitt úr ríkisstjórn gleðja marga þá sem ákafast berjast fyrir skilyrðislausri aðild Íslands að ESB og telja sértæka hagsmuni Íslands litlu skipta.“