Bandaríska rokkstjarnan Jon Bon Jovi ætlar að halda tónleika á Spáni í næsta mánuði og taka ekkert fyrir viðvikið sem skilar því að hægt verður að stilla miðaverði í hóf. Hann segir í samtali við spænska dagblaðið El Mundo að kreppan hafi farið illa með Spánverja og vilji hann gera vel við aðdáendur sem hafi fylgt sér í 30 ár. Kreppan heldur áfram að bíta í Spánverja en samkvæmt nýjustu tölum dróst landsframleiðsla saman um 0,5% þar í landi á fyrsta ársfjórðungi. Samdrátturinn nemur 2% á ársgrundvelli. Landsframleiðsla hefur dregist viðstöðulaust saman á Spáni í sjö ársfjórðunga.

Tónleikarnir verða á Vicente Calderón-leikvanginum í Madrid, heimavelli spænska knattspyrnuliðsins Atlético Madrid. Uppselt er á tónleikana. Miðarnir kostuðu frá 18 til 39 evra og rennur andvirði miðasölunnar til kostnaðar við tónleikahaldið. Breska dagblaðið Guardian segir að til samanburðar kostar miðinn 95 evrur á tónleikum Jon Bon Jovi í Manchester í Bretlandi.