Þegar bankarnir féllu í október 2008 var Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við London School of Economics, frekar fylgjandi komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) til landsins. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að nú séu forsendur aðrar og því færri ástæður fyrir tilvist sjóðsins hér á landi. „Ég taldi fyrir tveimur árum að vandræðagangur í lausn mála væri svo mikill að hér þyrfti skynsama rödd. Við höfðum misst svo mikinn trúverðugleika að nauðsynlegt var að senda út skilaboð um að við værum að leysa vandamálin. Þá var AGS sú stofnun sem var mest viðeigandi og sú sem við vildum fá. Aftur á móti eru ákveðin vandamál sem fylgja vist hennar hér nú,“ segir Jón.

Hann bendir á að reynsla sjóðsins sé fyrst og fremst af vandamálum þróunarlanda. Aðkoma hans í kjölfar Asíukrísunnar á 10. áratugnum hafi endað mjög illa og sömu sögu sé að segja af Argentínu í upphafi aldarinnar. „Þá studdi sjóðurinn gengisstefnu sem gerði illt verra. Þetta byggi ég á þeirra eigin úttektum yfir það sem þeir hafa gert rangt. Sjóðurinn hefur ekki fengist við krísu í þróuðu ríki síðan Bretar óskuðu eftir aðstoð árið 1976. Ég get því ekki séð að þeir búi yfir þeirri þekkingu sem þarf til að fást við þróuð hagkerfi líkt og sjóðurinn er að fást við í dag.

Helsti kosturinn við að hafa AGS er afar sorglegur. Hann er sá að við höfum ekki nógu marga embættismenn sem eru hæfir eða fá stuðning frá íslenskum yfirvöldum til þess að stýra þjóðhagsfræðilegri uppbyggingu á þann hátt sem er nauðsynlegur til að ná stöðugleika í ríkisfjármálum. AGS þarf því að koma að málum einfaldlega vegna þess að við getum það ekki sjálf.“ Jón segir að ef hér eigi að byggja til framtíðar sé mikilvægt að senda þau skilaboð til annarra ríkja að við séum eins og þau. Viðvera AGS sendi hins vegar þau skilaboð að við séum í öðrum og verri flokki.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .