Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við London School of Economics, segir að ákvarðanir teknar í því efnahagsumhverfi sem nú er séu mikilvægari en áður og skipti sköpum fyrir næstu kynslóðir. Hann segir Ísland á krossgötum og nú ráðist hvort Ísland verði líkt og Argentína og Grikkland eða ein af ríku Norðurlandaþjóðunum.

Þetta sagði Jón á morgunfundi Íslenskra verðbréfa í dag. Yfirskrift erindi Jóns var „Næsti aldarfjórðungur“. Hann hóf mál sitt á að taka dæmi um þau lönd sem hafa vaxið í sitthvora áttina á síðasta aldarfjórðungi og sagði að ríki heimsins geta breyst úr því að vera fátæk yfir í að vera auðug á 25 ára, og öfugt. Hann sagði Litháen dæmi um land sem er á hraðri leið með að verða eitt af ríkari löndum heims. Dæmi um lönd þar sem hið öfuga á við séu Argentína og Grikkland.

Staða Írlands og Íslands er óljósari að mati Jóns og ákvarðanir í dag skipti sköpum. Hann segir að hingað til hafi ákvarðanir íslenskra yfirvalda verið skyndiákvarðanir sem ekki virkuðu. Nú getum við ákveðið hvort við lærum af mistökunum og stefnum að því að verða ríkt Norður-Evrópuríki eða haldið áfram eins og áður. Skilyrði fyrir velferð þjóðarinnar sé meðal annars bætt menntakerfi, stöðugt reglugerðaumhverfi og skynsamleg gengisstefna.

Jón var nokkuð gagnrýninn á stjórnvöld og sagði reglugerðaumhverfi í dag byggja um of á að fyrirbyggja hrunið, sem þegar hafi orðið. Sama skammtímahugsun virðist vera við lýði í dag og á árum áður. Þá megi draga mun dýpri lærdóm af Rannsóknarskýslu Alþingis en hafi verið gert hingað til. Hann sagði of algengt að hún sé lesin líkt og glæpasaga eftir Arnald Indriðason. Miklu máli skiptir að þjóðin læri af henni.