Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum við London School of Economics, segir það mundu auka traust á íslenskt efnahagslíf ef skipt væri um bankastjórn Seðlabanka Íslands: „Ein besta yfirlýsing sem íslensk stjórnvöld gætu komið með í dag, væri tilkynning um að ný bankastjórn væri tekin við,” segir Jón í samtali við Viðskiptablaðið. Jón tekur undir gagnrýni Richard Portes á Seðlabanka Íslands sem kom fram á vb.is í gær .

Jón segir tvö vandamál hrjá íslenska hagkerfið núna – annars vegar sé það skortur á trúverðugleika og hins vegar frost á gjaldeyrismarkaði. Hann segir að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar þurfi að vera nægilega stór til að hagkerfið þyldi útstreymi fjármagns í eigu erlendra aðila.

„Pakkinn þarf að vera nægilega stór til að einhver gjaldeyrir verði eftir í landinu, ef erlendir aðilar færa sína peninga annað. Þeir sem vilja fara út, verða að fá að fara út. Ef það tekst að búa til nógu stóran pakka, þá er það hið besta mál,” segir hann.

Jón segir íslenskt efnahagslíf byggja á traustum stoðum: „Margir gleyma að Íslendingar eiga mikið af eignum erlendis. Sé litið til langs tíma fer því fjarri að allt sé í kalda koli. Erfiðleikarnir núna eru fyrst og fremst skammtímavandamál.”