Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við London School of Economics, segir að margt bendi til þess að íslenskt efnahagslíf hafi tekið skref aftur á bak eftir hrunið. Þá eigi hann ekki eingöngu við hin augljósu vandamál í kjölfar hrunsins. „Það er áhyggjuefni hvernig tengsl atvinnulífs og stjórnmála virðast vera að aukast. Það er stórhættulegt ef einstakir ráðherrar eða embættismenn eru að beita sér fyrir hvaða fyrirtæki eða hvers konar rekstur á að vera á Íslandi og hver ekki. Það getur bara endað illa,“ segir Jón.

Hann telur að margt hafi mátt gera betur í kjölfar hrunsins og að stjórnvöld þurfi að koma því betur til skila til umheimsins að hér sé unnið að lausn vandamála. „Við þurfum að senda bein skilaboð um það hvernig við ætlum okkur að reka íslenskt hagkerfi. Í það fyrsta þurfum við að sýna fram á að stjórnvöld hafi tök á vandamálinu og að þau skilji vandamálið. Það gera þau með því að taka skynsamlegar ákvarðanir. Eitt af vandamálunum fyrir hrunið var skilningsleysi stjórnvalda á stöðu efnhagslífsins. Það virðist ekki hafa breyst.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .