Troðið var út úr dyrum í þegar Dr. Jón Daníelsson, dósent í fjármálum við London School of Economics, hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands fyrr í dag. Í fyrirlestrinum fjallaði Jón um fjármálakreppuna erlendis, orsakir hennar, stöðu mála og líklega framtíðarþróun.

Jón fór um víðan völl í fyrirlestri sínum og ræddi hann t.a.m. þær miklu breytingar sem orðið hafa á bankastarfsemi á undanförnum árum. Bankar hafi starfað með mun minna eiginfjárhlutfall en áður tíðkaðist og velt sér áfram á skammtímafjármögnun.

Bankar og fjármálastofnanir segir hann einnig hafa beitt einskonar blekkingum til þess að fegra stöðu sína með því að færa eignir af efnahagsreikningi sínum. Með því hafi hann dregist saman og þar með hafi staðan virst öruggari en hún í raun og veru var. Jón segir alvarlegustu blekkinguna þó líklega hafa verið sjálfsblekkingu fjármálastofnanna sjálfra sem séu nú óðum að týna tölunni.

Hann segir eðli fjármálastofnanna að taka of mikla áhættu og að spenna bogann því of hátt. Í ljósi sérstakrar stöðu bankanna þurfi því regluverk í kringum þá til að reyna að lágmarka skaða samfélagsins af því hruni sem myndist þegar bólurnar springa. Hann varar þó við þeirri hættu sem myndast getur í hruni sem þessu, ef andstæðingar frjáls markaðar, sem fá nú spilin upp í hendurnar, koma í gegn þungbæru regluverki á markaðinn og valdi þannig langtímatjóni á hagkerfinu. Slæmt væri hverfa aftur til 1970 með því að auka höft og dýpka þannig kreppuna.

Aðspurður hvernig lágmarka eigi kostnaðinn af kreppunni sem gengur nú yfir segir Jón ofar öllu að koma atvinnulífinu aftur af stað. Hann undrar sig á því að á meðan erlendar þjóðir leggi allt kapp á að reyna að koma atvinnulífinu í löndum sínum til bjargar, með því að lækka vexti og að reyna að auka lausafé í umferð, þá séum við Íslendingar að hækka vexti og þannig að takmarka svigrúm fyrirtækja.

Vissulega skipti gæði veða og verðbólga verulegu máli við hefðbundið árferði en nú þegar kreppan ríður yfir segir hann önnur lögmál gilda. Í fyrirlestrinum líkti hann kreppunni við brennandi hús og sagði að atriði, eins og illdeilur við nágrannann og umræður um hvar sé best að leggja brunaslöngurnar, blikni við hlið vatnsþarfarinnar sjálfrar.

Aðspurður um gjaldeyrismarkaðinn sagði Jón að augljóst væri að peningurinn vilji úr landi. Fólk vilji ekki eiga krónur eins og sakir standa og því ætti að stinga á bóluna og leyfa genginu að hrapa tímabundið. Slík þróun yrði þó aldrei eilíf og því gæti Seðlabankinn brugðist við og gefið út bréf til lengri tíma. Einnig gæti ríkisstjórnin aðstoðað þá sem lentu í vandræðum vegna gengisáhættu.

Varðandi framtíð íslenska bankakerfisins sagðist Jón vonast til þess að Íslendingar bæru gæfu til þess að einkavæða bankana á ný sem allra fyrst. Þetta hrun væri enginn dauðadómur yfir kaptíalismanum frekar en fyrri hrun og frjáls markaður væri án efa lang besta fyrirkomulagið.

„Versta fyrirbærið sem við getum haft eru ríkisbankar,“ sagði hann og bætti við að honum hryllti beinlínis við að sjá stjórnmálaflokkana þegar vera farna að ota sínum tota inn í bankaráðum nýju bankanna.

Að lokum sagðist Jón telja að mikil tækifæri biðu íslenskri þjóð þegar kreppan væri yfirstaðin. Hér búi vel menntað og kjarkað fólk í litlu og sveigjanlegu hagkerfi en slíkt sé góð uppskrift að fjölda framsækinna og farsællra fyrirtækja.