Í síðustu viku var gengið frá kaupum Jóns Diðriks Jónssonar á öllu hlutafé í afþreyingarfyrirtækinu Senu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Jón Diðrik hefur verið stjórnarformaður og stærsti hluthafi félagsins en þeir hluthafar sem selja sína hluti í þessum viðskiptum eru fjárfestingafélögin Kjölfesta, Sigla og Úrlausn og framkvæmdastjóri Senu, Björn Sigurðsson.

Þá mun Jón Diðrik taka sæti sem starfandi stjórnarformaður en Björn Sigurðsson mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri frá og með áramótum og jafnframt taka sæti í stjórn félagsins.

Aðspurður segir Jón Diðrik að engar sérstakar breytingar muni fylgja kaupunum að öðru leyti en að hann mun taka við sem starfandi framkvæmdastjóri Senu auk þess sem að deildarstjórar hvers sviðs munu í kjölfarið verða framkvæmdastjórar hver á sínu sviði. „Það hafa verið miklar breytingar á rekstrinum síðustu árin en ég sé ekki miklar breytingar framundan,“ segir Jón Diðrik. „Þetta er geiri sem er í stanslausri þróun og fyrirtækið mun þróast áfram en ég held að stærstu umbyltingarnar séu að baki.“