Á baksíðu Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun má lesa frétt um að Jón Diðrik Jónsson, forstjóri Ölgerðarinnar, muni láta af störfum um næstu áramót. Jón var ráðinn til Ölgerðarinnar fyrir þremur árum síðan og hefur á þessum tíma stýrt fyrirtækinu fram á við á tímum mikilla breytinga. Rætt verður við Jón Diðrik um þær breytingar sem hafa orðið á Ölgerðinni og drykkjarvörumarkaðnum á síðustu þremur árum.

Frá Ölgerðinni höldum við síðan til Argentínu en Stangveiðifélagið Lax-á hefur nú bætt við nýjum og ódýrari valkostum í stangveiði þar í landi - Ásta Ólafsdóttir ætlar að segja okkur frá þeim - en Argentína er þekkt fyrir að fóstra risavaxna sjóbirtinga - sem mælast vel yfir 20 pundin, en Lax-á hefur um nokkurra missera skeið leigt sjóbirtingsá í Argentínu og selt veiðimönnum út um allan heim veiðileyfi í hana.

Í seinni hluta þáttarins ætlum við að huga að beinni markaðssókn. Á síðustu árum hafa heimildir auglýsenda til að nálgast markhópaupplýsingar hjá hinum opinbera rýmkast en íslenskir auglýsendur virðast ekki hafa kveikt á perunni. Samtök auglýsenda efna til fræðslufundar um beina markaðssókn á föstudaginn, þar ætlar Veturliði Þór Stefánsson að fjalla um hvað megi og hvað megi ekki, óhætt að lofa fróðlegu erindi og við ætlum að slá á þráðinn til hans og hita upp fyrir fundinn.

Við ljúkum viðskiptaþættinum í dag á því að kynna okkur nýjan íslenskan uppboðsvef, Uppbod.is heitir hann, en á honum stunda menn gæðauppboð á Netinu. Uppboð.is er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar á Netinu en þar geta menn boðið í dýrindis antikmuni meðal annars, málverk og sitthvað fleira. Ari Magnússon eigandi vefsins segir frá honum.

Þátturinn er sendur út á FM 99,4 og er endurfluttur klukkan eitt í nótt.

Viðtöl úr þáttum vikunnar eru endurflutt á föstudögum milli 16 og 17.