Stjórn Íslenskrar afþreyingar hf. hefur, að undangengu formlegu söluferli, gengið að tilboði Garðarshólma Rekstrarfélags, sem er í eigu er í eigu Jóns Diðriks Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar, í öll hlutabréfin í Senu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri afþreyingu en tilboðið, sem er með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, metur heildarvirði Senu á 500 milljónir króna.

Þá kemur fram í tilkynningunni að Garðarshólmi yfirtekur engar skuldir frá Íslenskri afþreyingu við söluna.

Straumur fjárfestingabanki annaðist formlegt söluferli á Senu. Söluferlið hófst í janúar s.l. og óskuðu þá 20 aðilar eftir formlegri þátttöku. Átta aðilar skiluðu inn óskuldbindandi tilboðum í félagið fyrir 5. febrúar s.l. Í framhaldinu var gengið til viðræðna við þá er höfðu lagt fram hagstæðustu tilboðin en frestur þeirra til að skila inn bindandi tilboði rann út í gær.

Capacent Fyrirtækjaráðgjöf var ráðgjafi Garðarshólma í ferlinu.

Sena er, samkvæmt tilkynningunni, stærsta afþreyingarfyrirtæki landsins og felur starfsemin í sér innflutning og sölu á tónlist, kvikmyndum og tölvuleikjum ásamt því að skipuleggja atburði af ýmsum toga, með íslenskum og erlendum listamönnum. Sena rekur verslanir Skífunnar og kvikmyndahúsin Smárabíó, Háskólabíó, Regnbogann og Borgarbíó Akureyri.

Garðarshólmi er sem fyrr segir í eigu Jóns Diðriks Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar en samkvæmt tilkynningunni er gert ráð fyrir aðkomu Björns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Senu og lykilstjórnenda í kaupunum.

Jón Diðrik Jónsson mun verða stjórnarformaður félagsins en hann hefur langa reynslu af neytendamarkaðsmálum í gegnum stjórnunarstörf hjá Coca-Cola í Asíu og Evrópu og sem forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf.