Jón Sigurðsson, einn eigenda GAMMA og fyrrverandi forstjóri FL Group, hefur ákveðið að draga til baka framboð sitt til stjórnar N1. Í bréfi til stjórnarformanns félagsins, sem birt er á síðu kauphallarinnar, segir hann að ástæðurnar séu þær að kauphöllin hafi tilkynnti félaginu fyrir tveimur dögum að stofnunin hefði efasemdir um hæfi Jóns til að gegna stjórnarstörfum í skráðu félagi.

„Í bréfi kauphallarinnar til félagsins kom jafnframt fram að verði ég kjörinn í stjórn muni kauphöllin íhuga ráðstafanir til að koma þessum efasemdum sínum á framfæri við markaðsaðila, eða eftir atvikum, sett bréf félagsins á athugunarlista. Í ljósi þessa, og með hagsmuni N1 að leiðarljósi, hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka,“ segir í bréfinu.

Hann segir langt frá því að hann sé sáttur við afstöðu og framgöngu kauphallarinnar í þessu máli. „Það er mat mitt og lögmanna minna að kauphöllin hafi hvorki lagalega- né samningsbundna heimild til að beita sér á þann hátt sem hún hefur nú gert gagnvart félaginu og mér.“

Athugasemdir kauphallarinnar sneru að þremur áminningum sem stofnunin veitti FL Group/Stoðum á þeim tíma sem Jón var forstjóri félagsins. Tvær áminningar sneru að skráningu nýrra hluta í kjölfar hlutafjárhækkunar sem fór fram í desember 2007 og hins vegar hvenær upplýsingaskylda hefði orðið virk gagnvart markaði vegna sölu á eignarhlutumí Commerzbank í janúar 2008. Jón segir að ágreiningur hafi verið milli FL Group/Stoða og kauphallarinnar á sínum tíma hvort félagið hefði gerst brotlegt við reglur kauphallarinnar vegna þessara mála. Eftir umfangsmikil bréfaskipti urðu engir eftirmálar vegna málanna tveggja.

Síðasta tilvikið varðar birtingu ársreiknings vegna ársins 2008, sem kauphöllin taldi að hefði verið of sein. Jón segir að vegna þeirrar óvissu sem skapast hafi eftir bankahrunið hafi verið ógerlegt að birta ársreikning fyrir apríllok 2009, ens og reglur kauphallarinnar gerðu ráð fyrir.

Bréf Jóns má lesa í heild sinni hér.