„Ég drekk gífurlega mikið magn af vatni, að lágmarki 2-3 lítra á dag. Um leið og ég vakna drekk ég hálfan líter. Og áður en ég byrja morguninn drekk ég annan til svo ég er fljótur í líterinn. Vatnið kemur öllu í gang," segir Jón Ólafsson. Hann sækir ekki beint vatnið yfir lækinn enda stofnandi, stjórnarformaður og helsti hluthafi átöppunarfyrirtækisins Icelandic Water Holdings, sem selur vatn á flöskum undir merkjum Icelandic Glacial um nær allan heim.

Jón, sem fagnar 60 ára afmæli 6. ágúst, segir fólk ekki átta sig á því hversu mikil orka er í vatninu. Fólk er rétt að vakna til meðvitunar um mikilvægi þess fyrir líkamann.

„Stór hluti af orku okkar fáum við úr vatni," segir Jón og telur upp mikilvægi vatns fyrir líkamann. „Ef maður er slappur en veit ekki hvað er að gerast þá nægir að drekka hálfan eða einn líter af vatni. Tuttugu mínútum síðar líðanin allt önnur. En fæstir hugsa þetta þótt það liggi í augum uppi," segir hann.

Vatnið þarf að vera hreint

En vatn er ekki bara vatn, að sögn Jóns. „Það er hægt að setja rusl í flöskur. En í góðu vatni þarf allt hráefnið að vera rétt. Vatnið á að vera bragðlaust, lyktarlaust, litarlaust og ekki steinefnaríkt. Aðeins þá er það gott," segir Jón og ítrekar að vatnið sem fyrirtæki hans framleiði sé í hæsta gæðaflokki. Verðmiðinn er líka eftir því en vatn á flöskum fyrirtækisins eru með þeim dýrari. Aðeins flöskur með vatni undir merkjum norska drykkjavörufyrirtækisins Voss eru dýrari.

Ítarlegt viðtal við Jón Ólafsson má lesa í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, 24. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .