Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að lögmaðurinn Jón Þór Ólafsson fær ekki að verja AK fasteignir í máli Sérstaks saksóknara gegn félaginu og Aroni Pétri Karlssyni. Forsendurnar eru þær að Jón Þór var á vitnalista ákæruvaldsins í málinu. AK fasteignir hafa frest fram á mánudag til að kæra úrskurðinn samkvæmt lögum.

Málið tengist sölu Aron Péturs á stórhýsi við Skúlagötu í janúar árið 2010. Í húsinu er nú sendiráð Kínverja hér á landi. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru í málinu um miðjan síðasta mánuð. Samkvæmt ákærunni hlunnfór Aron Pétur Glitni og Íslandsbanka um 300 milljónir króna með sölunni. Bankarnir áttu veðrétt í húsinu fyrir rúman milljarð og gera 150 milljóna króna kröfu í málinu.

Karl Steingrímsson, faðir Arons og gjarnan kenndur við Pelsinn, var yfirheyrður vegna málsins á sínum tíma auk lögmanna. Aron var hins vegar einn ákærður.

Verði úrskurður Héraðsdóms ekki kærður mun dómurinn skipa AK fasteignum verjanda í næsta þinghaldi í málinu. Þá mun ákræða gefast kostur á að skila greinargerð í málinu. Hvorki liggur fyrir hvenær málið sjálft verður tekið til aðalmeðferðar né hvenær vænta megi dómsniðurstöðu í því.