Aðspurður um það hvort bankakerfið sé of stórt, eins og margir hafa haft á orði, segir Jón Finnbogason, sparisjóðsstjóri Byrs að Byr hafi lagt sitt af mörkum til hagræðingar í samrunaferli frá árinu 2006 þegar Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra sameinuðust í Byr og í framhaldinu runnu Sparisjóður Kópavogs og Sparisjóður Norðlendinga inn í sjóðinn.

„Það er búið að hagræða í rekstri þessara fyrirtækja með markvissum hætti. Kostnaðarhlutfall hefur lækkað og við höfum verið í hagræðingarferli allan þennan tíma,“ segir Jón í samtal við Viðskiptablaðið.

„Við höfum svo sannarlega upp á margt að bjóða sem viðskiptavinir okkar sækjast eftir. Kannanir sýna líka að sparisjóðirnir eru fyrsti valkosturinn þegar kemur að því að velja sér fjármálafyrirtæki. Í grunninn er það mín reynsla eftir að hafa verið á fjármálamarkaði síðan 1999 að afurðirnar eru mjög sambærilegar á milli fjármálastofnana en það sem gerir gæfumuninn er sú persónulega þjónusta sem sparisjóðirnir veita í kringum afurðirnar.“

En hvað með sparisjóðakerfið sjálft, má búast við frekari samstarfi eða sameiningu þar?

„Viðræður hafa verið á milli sparisjóðanna og það er stefnumótunarvinna í gangi,“ segir Jón.

„Það sem við sjáum fyrir okkur, í samstarfi við aðra sparisjóði, er að nýta heimild í lögum um fjármálafyrirtæki sem sett voru í fyrra en þeim var breytt þannig að sparisjóðum var heimilað mun víðtækara samstarf sín á milli en áður mátti.“

Þannig segir Jón að hægt sé að sjá fyrir sér samstarf sparisjóðanna um áhættustýringu, upplýsingakerfi, öryggiseftirlit, endurskoðunardeild, markaðsmál, lögfræðiráðgjöf og fleira. Þetta séu samstarfsþættir sem sjóðirnir gætu sameinast um en áfram gæti hver og einn sparisjóður annast grunnþjónustu við viðskiptavininn og annað verið rekið sameiginlega.

„Byr er stærsti sparisjóðurinn og býr þegar yfir mikilli þekkingu hvað varðar þessa þætti. Við erum meira en tilbúin til að taka þátt í þessari vinnu og efla samstarf sparisjóðanna í landinu, engin spurning. Sparisjóðirnir þurfa að horfa til hagkvæmra eininga og þetta er hluti af því,“ segir Jón.

„Við sækjumst ekki eftir því að taka þetta yfir fyrir hina sparisjóðina heldur viljum við nota þær heimildir sem gefnar eru í lögum til þess að auka hagræði. Þetta getum við gert eins og við gerum á upplýsingatæknisviðinu, þó að önnur fjármálafyrirtæki geti þetta ekki sín á milli. Þarna er hægt að ná fram góðri hagræðingu án þess að sameinast. Menn vilja eiga sinn sparisjóð í sínu héraði sem er auðvitað mjög gott og þannig ná sparisjóðirnir líka að veita betur þá persónulegu þjónustu sem hefur hingað til auðkennt og veitt þeim sérstöðu á fjármálamarkaðnum.“

Jón segir að þessi leið, þ.e. að sparisjóðir vinni saman og nái þannig fram hagræðingu, hafi verið farin í Þýskalandi og gefið góða raun.

„Ég er nýr stjórnandi hér í Byr, ég geng alveg óbundinn til þessara viðræðna fyrir hönd Byrs. Ég er ekki með nein tengsl við þá sparisjóði sem áttu þátt í stofnun Byrs, né þá sparisjóði sem við komum hugsanlega til að með að starfa með,“ segir Jón.

„Þetta verður gert út frá skynsemisgrundvelli. Við þurfum einfaldlega að spyrja okkur hvað sé best fyrir sparisjóðina á hinu nýja Íslandi. Menn geta ekki haldið áfram að keyra á sama módelinu. Sá tími, þar sem sífellt var verið að bjóða nýja vöru, hærri lán og aukna þjónustu, er liðinn.“