„Mér líst mjög vel á þetta, það vel að ég er orðinn hluthafi og stjórnarformaður," segir Jón Sigurðsson. „Ég hefði ekki tekið þetta verkefni að mér öðruvísi en að gerast líka hluthafi."

HPP Solutions framleiðir verksmiðjur, sem vinna hágæða prótein og olíur úr hvítfisk, uppsjávarfisk, laxfiskum og skeldýrum. Þær eru smíðaðar í mismunandi stærð eftir því hvort þær eru fyrir skip eða landvinnslu. HPP var dótturfélag Héðins en er nú orðið sjálfstætt félag að fullu leyti. Samhliða þeirri breytingu voru eignarhlutir afhentir hluthöfum Héðins. Auk þeirra á Jón nú hlut í félaginu eins og áður sagði.

HPP próteinverksmiðjur hafa verið seldar til útgerða og landvinnsla í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Færeyjum, Englandi, Finnlandi, Frakklands og Noregs. Hér á landi hafa verið seldar fjórar HPP-verksmiðjur. Þar á meðal er ein um borð í fullkomnasta fiskiskipi Norðurslóða, Ilivileq í eigu Brims og á Neskaupstað er nú að rísa 380 tonna HPP-verksmiðja sem er smíðuð fyrir Síldarvinnsluna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.