Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Jón Gerald Söllenberger í þriggja mánaða skilorðbundið fangelsi og Tryggva Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Tryggvi hafði áður fengið níu mánaða dóm í Baugsmálinu þannig að þrír mánuðir bætast við hans refsingu.

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri og nú starfandi stjórnarformaður Baugs, var hinn bóginn sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og málsvarnarlaun verjanda hans, Gests Jónssonar hrl., 400 þúsund krónur, skulu greiðast úr ríkissjóði.

Jóni Geraldi var hins vegar gert að greiða 8,1 milljón króna málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjars Níelssona hrl., og Tryggva var gert að greiða 1/3 af 400 þúsund króna málsvarnarlaunum verjanda síns, Jakobs R. Möllers hrl.

Jón Gerald var sakfelldur fyrir aðkomu að sama broti og Jón Ásgeir var dæmdur fyrir í fyrri dómi, það er að segja meiri háttar bókhaldsbrot með því útbúa tilhæfulausan kreditreikning. Brotið varðar við 2. málsgrein 262. grein almennra hegningarlaga, samanber 2. málsgrein 37. grein laga um bókhald.

?Ákærði, Jón Gerald, hefur viðurkennt að hafa skrifað framangreindan reikning samkvæmt beiðni meðákærða, Tryggva, eins og rakið var, og sent í faxtæki á skrif¬stofu hans. Hann hefur sagt að engin viðskipti hafi verið á bak við reikninginn og hafi hann eytt honum úr bókhaldskerfi Nordic Inc. eftir að hafa prentað hann út. Það er niðurstaða dómsins sannað sé að reikningurinn hafi verið notaður í bókhaldi Baugs hf. og með hliðsjón af reynslu ákærða og störfum hafi honum hlotið að vera ljóst að reikn¬ingurinn myndi verða notaður í bókhaldinu. Ákærði hafi því gerst sekur um að aðstoða meðákærðu við brot þeirra samkvæmt þessum lið. Er brot hans réttilega fært til refsiákvæða í ákæru. Brotið framdi ákærði á starfsstöð sinni í Flórída en reikn¬ingurinn var notaður í bókhaldi hér á landi og samkvæmt 7. gr. sömu laga ber að líta svo á verkið hafi einnig verið unnið hér á landi,? segir í dómnum.

Tryggvi var sakfelldur fyrir fjárdrátt og varðar brot hans við 247. grein almennra hegningarlaga.

Ákæran var upphaflega í 19 liðum, en með úrskurði 30. júní í fyrra vísaði héraðsdómur 1. ákæruliðnum frá dómi og var sá úrskurður staðfestur af Hæstarétti. Dómur gekk í héraði um þá 18 ákæruliði sem eftir stóðu 3. maí síðastliðinn og var 2.-10. hluta 15. og 19. ákærulið vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar 1. júní síðastliðinn var frávísunin felld úr gildi (að frátaldri frávísun 10. ákæruliðar).

Málið var endurflutt um framangreinda ákæruliði 13. júní sl. auk þess sem eitt vitni var yfirheyrt.