Jón Gerald Sullenbergar í Kosti hefur látið hlutlausan aðila rannsaka innihald þeirra matvara sem Matvælastofnun (MAST) hefur gert upptækar í verslun hans og niðurstaðan er sú að í öllum tilvikum var innflutningur á vörunum leyfilegur. Hann ætlar í samráði við lögmann sinn að fara fram á það við MAST að stofnunin bæti versluninni það tjón sem hún hefur orðið fyrir. „Einnig erum við tilbúin að láta reyna á málið fyrir dómstólum, sé þess þörf,“ segir Jón Gerald.

Jón segir offors matvælaeftirlitsins hafa verið slíkt undanfarin misseri að vörur, sem fyllilega er heimilt að flytja inn og selja hér á landi, hafa verið gerðar upptækar í stórum stíl, án þess að þær hafi verið rannsakaðar.

Stóra Coco Puffs-málið

Jón Gerald skrifar um samskipti sín við MAST í gegnum tíðina í nýjasta tölublaði Þjóðmála sem var að koma út. Þar ræðir hann um tilurð verslunarinnar og innflutning á ýmsum vörum frá Bandaríkjunum til að bæta það sem hann kallar einhæft úrval í verslunum. Vöruúrvalið og reglugerðafarganið í kringum innflutning á vöru segir Jón Gerald bera þess merki að íslensk stjórnvöld hafi gengið erinda evrópskra matvælaframleiðanda með því að sjá til þess að amerískarneytendavörur verði ekki ódýrari hér á landi en vörur frá Evrópusambandslöndunum.

Jón Gerald telur í grein sinni upp nokkur dæmi þess að hann lenti í vandræðum með vörur í verslun sinni sem hann hugðist flytja inn frá Bandaríkjunum. Hæst bar Coco Puffs. Hann skrifar jafnframt um 60 krukkur af karamellusósu sem í var mjólk.

Jón Gerald skrifar:

„Fulltrúi eftirlitsiðnaðarins óskaði eftir því að þessi gámur færi í skoðun hjá MAST og meinaði okkur innflutninginn, sagði óheimilt að flytja inn afurðir úr dýraríkinu frá Bandaríkjunum nema vörunni fylgdu tilskilin opinber vottorð. Þá hófst skrifræðið fyrir alvöru. Það þurfti að útbúa ný farmbréf, eitt fyrir sósuna og annað fyrir aðrar vörur gámsins og einnig þurfti að kalla eftir nýjum reikningum að utan. Þar sem komin voru ný farmbréf og reikningar þurfti að tollafgreiða gáminn að nýju! Þetta eftirlit varð til þess að vika leið frá því að vörurnar komu til landsins þar til þær stóðu viðskiptavinum okkar til boða. Sósan var flokkuð sem samsett matvæli, ekki landbúnaðarafurð. Sérfræðingur MAST gaf sér að mjólkurinnihald sósunnar væri yfir 50% innihaldsins. Engin sýni voru tekin og engar rannsóknir gerðar. Þetta var því einfaldlega geðþóttaákvörðun eins starfsmanns MAST! Ef þessi sérfræðingur Mast hefði leitað sér upplýsinga áður en gengið var fram með þessu offorsi hefði eftirlitinu verið ljóst að mjólkurinnihald vörunnar var langt innan leyfilegra marka og innflutningurinn því að fullu lögmætur, eins og kom á daginn. MAST skilaði karamellusósunni til Kosts en ómögulegt er að segja hvað þessi geðþóttaákvörðun sérfræðingsins hjá Mast hafi kostað hið opinbera. Þeim peningum hefði betur verið varið í uppbyggilegri mál. Í þessu tilviki áttaði MAST sig á mistökum sínum. En það heyrir til undantekninga.“