Verslunin Kostur Kópavogi hafnar í yfirlýsingu því sem verslunin segir vera harkalegar ásakanir Alþýðusambands Íslands um að þær verslanir „leiti skjóls til verðhækkana“ sem ekki taka þátt í verðkönnunum sambandsins.

Í yfirlýsingunni, sem undirrituð er af Jóni Geraldi Sullenberger, segir að því fari fjarri að verðkannanir ASÍ gefi rétta mynd af dagvörumarkaðnum. „Meðan verðlagseftirlit sambandsins velur að kanna verð einungis hjá hluta verslana og bera saman ólík vörumerki er augljóst að verðsamanburðurinn gefur langt frá því raunsanna mynd af verðlaginu og upplýsingarnar sem ASÍ miðlar til neytenda eru því takmarkaðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir jafnframt að mikil samkeppni ríki á dagvörumarkaði og neytendur leiti í þær verslanir sem bjóði samkeppnishæft verð, vandaðar vörur og gott vöruúrval. Verðkannanir og önnur upplýsingagjöf til neytenda sé sjálfsögð og eðlileg þjónusta en þá verði að vera tryggt að fyllsta jafnræðis sé gætt og allar verslanir sitji við sama borð. „Það orkar óneytanlega tvímælis að ASÍ skuli ákvarða einhliða í hvaða verslunum verð er kannað og hvernig verðlagseftirlitinu er háttað. Kostur hvetur verðlagsráð ASÍ til að endurskoða vinnubrögð sín þannig að sátt skapist um faglega unnar og upplýsandi verðkannanir neytendum til hagsbóta.“