„Hvort er quinoa korn eða fræ? Því velti tollvörðurinn fyrir sér sem afgreiddi gám sem Kostur flutti inn á dögunum frá Bandaríkjunum,“ segir í grein Jóns Geralds Sullenberger, eiganda matvöruverslunarinnar Kosts, í Morgunblaðinu í dag. „Til þessa hefur heilsuvaran quinoa sem upprunin er í Andesfjöllum verið flokkuð sem korn en átti nú að flokkast sem fræ. Í sjálfu sér skipti það engu máli, nema að þá var Kosti gert að sækja um innflutninsleyfi fyrir „fræjunum“ til Matvælastofnunar,“ bætir Jón við og lýsir atburðarás sem hann sjálfur kallar farsa.

Í grein sinni í dag gagnrýnir Jón skriffinsku og starf eftirlitsaðila sem innkölluðu umræddan gám og rekur samskipti sín við þá. Hann þurfti að bíða nokkra daga eftir afgreiðslu á umræddu leyfi. Eftir að það fékkst var gerð athugasemd við 60 krukkur af amerískri karamellusósu sem var í gámnum. Sú sósa inniheldur að sögn Jóns m.a. mjólk og vantaði leyfi til innflutnings afurða úr dýraríkinu frá Bandaríkjunum. Aftur tók við bið eftir að losa gáminn úr tollinum.

„Það er ótrúlegt að þurfa að búa við öfuga sönnunarbyrði í samskiptum við opinbera eftirlitsaðila, að þurfa að sanna sakleysi sitt eftir að úrskurðar er felldur. Það er ólíðandi með öllu að hafa „réttarstöðu grunaðs“ fyrir það eitt að flytja inn matvörur frá Bandaríkjunum. Nú hefur Mast skilað karamellusósunni til Kosts en ómögulegt er að segja hvað þessi geðþóttaákvörðun sérfræðingsins hjá Mast hafi kostað hið opinbera en kostnaðurinn leggst á skattborgara þessa lands. Þeim peningum hefði betur verið varið í uppbyggilegri mál,“ segir Jón að lokum.