Eins og áður hefur komið fram flytur Jón Gerald Sullenberger mikið af vörunum inn sjálfur fyrir verslun sína, Kost, og þá helst frá Bandaríkjunum. Það eru tvær spurningar sem vakna í því samhengi; hvernig eru aðstæður til innflutnings og kallar það ekki á mikla vinnu og um leið kostnað, að standa í þessu sjálfur?

„Þetta er vissulega mikil vinna en hún borgar sig á endanum,“ segir Jón Gerald í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Matvörur eru ekki dýrar í Bandaríkjunum og í því samhengi er mjög athyglisvert að fylgjast með umræðunni um mögulega inngöngu í Evrópusambandið (ESB). Stjórnvöld eru mjög upptekin af því að koma okkur inn í ESB og margir tala um að með inngöngu muni matvöruverð lækka. Staðreyndin er nú samt sú að matvöruverð innan ESB er um 20-40% dýrara en í Bandaríkjunum. Það er alltaf verið að tala um hvað matvöruverð sé hátt á Íslandi en ég get ekki séð að það muni lækka með inngöngu í ESB.“

Jón Gerald segir þetta eiga við um vöruverð almennt, ekki bara verð á matvörum.

„Maður gat hvergi lesið um það fyrir síðustu jól að það væri uppselt í verslunarferðir til London eða Kaupmannahafnar, en þess í stað var uppselt í allar ferðir til Boston. Þrýstingur á verð í Bandaríkjunum er mjög mikill og það framkallar þetta lága vöruverð,“ segir Jón Gerald.

„Það er mjög dapurlegt hversu dýrar vörur þurfa að vera hér á landi. Þegar við flytjum inn vöru sem flokkast ekki sem matvara þurfum við að greiða af henni 15- 20% vörugjöld. Þetta er kostnaður sem neytendur þurfa að bera að lokum.

Opinberu gjöldin íþyngjandi

Hér er Jón Gerald kominn á nokkuð flug og blaðamanni dettur ekki í hug að stoppa hann. Það er ljóst að skoðanir hans á umsvifum hins opinbera eru nokkuð afgerandi.

„Það er sorglegt að sjá að stjórnvöld geta ekki einu sinni verið heiðarleg gagnvart neytendum. Það er ekki langt síðan að hér var lagður á sérstakur sykurskattur, með þeim rökum að íslenskir krakkar borðuðu svo mikinn sykur og væru því með skemmdar tennur,“ segir Jón Gerald.

„Væri ekki nær að leggja niður tolla og vörugjöld af tannburstum og tannkremi? Þegar við flytjum inn þessar vörur fara um 40% af vöruverðinu beint til ríkisins. Maður hefði haldið að það væri betra að lækka verð á þessum vörum þannig að foreldrar hefðu frekar efni á því að hirða tennur barna sinna. Þetta gera menn bara til að auka tekjur ríkisins og þá eiga menn bara að vera heiðarlegir og segja það. Ég sé ekki alveg tilganginn í því að leggja á háa skatta og tolla á Íslendinga. Það er mjög dýrt að flytja vörur til landsins hvort sem það er með skipum eða flugi og við greiðum mjög há vörugjöld, tolla og skatta hér heima. Þetta eru mestmegnis peningar sem eru fyrir í landinu en ríkið er að ryksuga til sín í opinberar álögur á kostnað íslenskra neytenda. Við ættum frekar að vinna markvisst í því að auka útflutning og fjölga hér erlendum ferðamönnum til að fá inn nýtt fé í landið. Við sitjum á gullnámu sem er landið okkar og það væri nær að afla erlendra tekna með auknum umsvifum í ferðaþjónustu.“