Jón Gnarr borgarstjóri ætlar að skrifa þriðju bókina í skáldaðri ævisögu sinni eftir að hann stígur úr stóli borgarstjóra. Hann hefur þegar skrifað tvær bækur sem fjalla um ævi hans, Indjánann og Sjóræningjann. Næsta bók heitir Útlaginn, að sögn Jóns sem ljóstraði því upp í útvarpsþættinum Tvíhöfða á Rás 2 rétt fyrir hádegi í dag að hann ætli ekki að bjóða sig aftur fram sem borgarstjóri í Reykjavík. Hann gaf ekkert uppi um efni bókarinnar.

Á sama tíma mun Besti flokkurinn renna saman við Bjarta framtíð.

Jón Gnarr bauð sig fram til setu í borgarstjórn fyrir Besta flokkinn fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010. Besti flokkurinn myndaði meirihluta með Samfylkingunni og varð Jón borgarstjóri en Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, varð formaður borgarráðs. Gengið verður til sveitarstjórnarkosninga næsta vor.

Jón útilokaði reyndar ekki endurkomu í stjórnmálin. Hann sagði í samtali við RÚV í hádeginu Besta flokkinn hugarástand. Hann hafi hvorki félaga- né stefnuskrá og hafi aldrei verið meira en fólkið í flokknum.