Jón Gnarr borgarstjóri segist ekki sjá sig fyrir sér í embætti forseta. Þetta sagði Jón í Kastljósi í kvöld. Hann tilkynnti í dag að hann myndi ekki gefa kost á sér til setu í borgarstjórn á næsta kjörtímabili.

„Ég hef velt því fyrir mér og ég held að ég yrði ekki góður forseti. Ég er ekki góður í veislum og svona. Og, nei! Ég sé mig ekki fyrir mér í því,“ sagði Jón Gnarr.

Ein helsta ástæðan fyrir því að Jón Gnarr hefur ákveðið að taka ekki áfram þátt í borgarpólitíkinni er að hans sögn sú að hann segist ekki vera stjórnmálamaður. Hann sé listamaður og vilji vinna áfram á því sviði.