*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 13. desember 2012 13:00

Jón Gnarr tók ómakið af Bjartri framtíð

Jón Gnarr borgarstjóri verður í 5. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík Norður.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Jón Gnarr borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

„Hann tók ómakið af okkur og tilkynnti þetta sjálfur á dagbók borgarstóra án þess að nokkur vissi af því að hann ætlaði að gera það,“ segir Atli Fannar Bjarkason, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, en Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík, verður í fimmta sæti á lista flokksins í kjördæminu Reykjavík Norður í þingkosningunum í vor. Atli Fannar bætir við að ekki hafi verið stefnt að því að tilkynna um það strax hvaða sæti Jón tæki á lista flokksins. Í raun hafi verið beðið eftir honum. „En svo fór hann bara út með það,“ segir Atli Fannar.

Björt framtíð lauk við að raða á lista fyrir kosningaslaginn í gærkvöldi. Róbert Marshall verður í fyrsta sæti í Reykjavík Suður, Guðmundur Steingrímsson leiðir Kragann, Brynhildur Pétursdóttir, ritstjóri Neytendablaðsins, fer fyrir flokknum í NA-kjördæmi og Árni Múli Jónasson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi, leiðir lista flokksins í NV-kjördæmi. 

Atli Fannar vildi í samtali við vb.is ekki segja hver muni leiða lista flokksins í Reykjavík Norður en þar verður Jón Gnarr í fimmta sæti.