Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, útilokar ekki að hann muni bjóða sig fram sem forseti Íslands. Þetta sagði Jón í þættinum Press Pass á NBC sjónvarpsstöðinni . Viðtal við Jón birtist á vef sjónvarpsstöðvarinnar á föstudaginn. Kjörtímabili forseta Íslands lýkur 2016.

Í viðtalinu ræddi Jón Gnarr bók sína GNARR: How I Became the Mayor of a Large City in Iceland and Changed the World. Hann ræddi eftirmála bankahrunsins á Íslandi og aðdragandann að því að hann stofnaði Besta flokkinn og bauð sig fram til setu í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann greindi frá því að framboð hans hefði í upphafi verið grín og hann hefði verið svolítið smeykur þegar Besti flokkurinn fór að mælast með það fylgi sem hann mældist með.

Í þættinum var hann líka spurður út í erfiðar ákvarðanir sem teknar voru á síðasta kjörtímabili, svo sem hækkun opinberra gjalda, fækkun borgarstarfsmanna og sameiningu skóla. „Að mínu áliti gerðum við það sem þurfti að gera,‟ sagði Jón. Hann sagðist jafnframt hafa tekið hlutverk sitt sem borgarstjóri mjög alvarlega. „Við höfðum tækifæri til þess að gera ýmislegt sem hefðbundnir stjórnmálamenn gátu ekki gert. því í þessu fólst pólitísk áhætta,‟ sagði hann. Hann minntist á aðgerðir sem ráðist var í hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Í lok viðtalsins var Jón spurður að því hvort hann myndi útiloka að sækjast eftir æðra embætti. „Forsetaembættinu? Nei, ég myndi ekki útiloka það,‟ sagði Jón og hló dátt.