„Það er vor í lofti, bæði veðurfarslega og fjárhagslega. En það er eins með hlýnun borgarsjóðs og hlýnun jarðar. Henni fylgja tækifæri en líka ábyrgð,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri þegar hann lauk ræðu um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir síðasta ár.

Samkvæmt ársreikningnum var afgangur af rekstri A og B hluta síðasta árs 8,4 milljarðar króna. „Vinnum saman af gleði og munum orðatiltækið "Þeir fiska sem róa." Ekki "Hann fiskar sem rær." Og ég ætla að ljúka þessari ræðu minni með tilvitnun, með leyfi forseta, í eitt af Reykjavíkurskáldunum; Magnús Þór Jónsson, betur þekktur sem Megas: „Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig,“ sagði Jón Gnarr í ræðu sinni.

Að lokum lagði borgarstjóri til að afgreiðslu ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013 yrði vísað til síðari umræðu.