„Mér finnst alltaf tignarlegt að sjá skip í höfnum þótt þeirra erindi sé meira úti á sjó,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fór í morgun með flokksbræðrum sínum, þeim Ásmundi Óttarssyni og Einari K. Guðfinnssyni niður að Reykjavíkurhöfn í morgun að skoða skipin sem þar lágu við bryggju og heilsa upp á áhafnir þeirra.

Fjöldi skipa aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna auk smábáta kom inn í höfnina í morgun og var talið að þau væru í kringum 70 talsins eftir hádegið. Skipin hafa þeytt flautur í nær allan dag.

Útgerðarmenn efndu til samstöðufundar við Alþingi á Austurvelli klukkan fjögur til að mótmæla kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Umræður standa enn yfir um þau innan dyra Alþingis. Lokað hefur verið fyrir aðgengi almennings á pöllum Alþingis í öryggisskyni af þeim sökum.

Jón segist hafa í samræðum sínum við sjómenn í morgun fundið fyrir einhug hjá sjómönnum gegn kvótafrumvörpunum. „Fólk var þarna komið til að leggja áherslu á þessi mál útfrá sínum forsendum en ekki vinnuveitenda eins og brigslað hefur verið um. Mér fannst almennt baráttuhugur í mönnum og að þeir óttuðust um kjör sín og afkomu þeirra fyrirtækja sem þeir vinna hjá,“ segir Jón.