Jón Sigurðsson mun láta störfum sem forstjóri Össurar þann 1. apríl næstkomandi en Jón hefur gengt stöðunni í 26 ár. Eftirmaður hans verður Sveinn Sölvason sem hefur starfað hjá Össuri frá árinu 2009, þar sem fjármálastjóri frá árinu 2013. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.

Jón var ráðinn til Össurar sem forstjóri árið 1996, en þá voru starfsmenn aðeins 40 og fyrirtækið var aðeins með um 400 milljónir króna í veltu. Jón hefur síðan leitt uppbyggingu fyrirtækisins sem varð eitt af óskabörnum þjóðarinnar undir hans stjórn. Á því tímabili hefur Össur keypt yfir 60 fyrirtæki og er í dag með 4.000 starfsmenn víða um heim.

Markaðsvirði Össurar er nú um 340 milljarðar króna og veltan yfir 90 milljarðar króna á ári. Félagið er skráð á danska hlutabréfamarkaðnum en var jafnframt í íslensku kauphöllinni fram til ársins 2017.

Jón Sigurðsson, fráfarandi forstjóri Össurar :

„Ég óska Sveini til hamingju og hlakka til að afhenda honum keflið. Það hefur verið mér mikill heiður að gegna stöðu forstjóra Össurar í 26 ár. Ég hef notið samstarfsins við framúrskarandi starfsfólk, viðskiptavini og aðra velunnara félagsins sem hafa átt þátt í velgengninni. Ég hlakka til að fylgjast með félaginu vaxa og dafna um ókomna tíð.”

Sveinn Sölvason, verðandi forstjóri Össurar :

„Ég þakka traustið sem mér hefur verið sýnt og hlakka til að takast á við nýtt hlutverk innan Össurar. Össur er í góðri stöðu til að halda áfram að auka lífsgæði fólks með nýsköpun og hátæknilausnum. Með skýrri framtíðarsýn og metnaðarfullu starfsfólki víða um heim eru okkur allir vegir færir.”

Sveinn er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Copenhagen Business School og starfaði áður í viðskiptaþróun hjá Marel og í fyrirtækjaráðgjöf hjá Kaupþingi, auk þess að vinna um tíma fyrir HSHNordbank og Goldman Sachs. Hann er giftur Birtu Björnsdóttur fréttamanni á RÚV og eiga þau þrjú börn.

Í tilkynningunni segir leit að nýjum framkvæmdastjóra fjármálasviðs mun hefjast þegar í stað.