Jón Há­kon Magnús­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri KOM, Kynn­ing­ar og markaðar ehf, og fyrrverandi fréttamaður Sjónvarpsins andaðist á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans 18. júlí, 72 ára. Þessu greinir Morgunblaðið frá.

Jón Há­kon fædd­ist í Reykja­vík 12. sept­em­ber 1941, for­eldr­ar hans voru Svava Sveins­dótt­ir hús­móðir og Magnús Guðjón Kristjáns­son skrif­stofu­stjóri.

Jón Há­kon lauk BA-prófi í stjórn­mála­fræði og blaðamennsku frá Maca­lester Col­l­e­ge í St. Paul í Minnesota, Banda­ríkj­un­um árið 1964. Hann starfaði að námi loknu sem blaðamaður hér á landi og í Banda­ríkj­un­um, var sölu- og markaðsstjóri hjá bílaum­boðinu Vökli hf. og skrif­stofu­stjóri hjá Flug­hjálp vegna Biafra stríðsins. Jón Há­kon var blaðafull­trúi á 1100 ára af­mæli Íslands­byggðar 1974. Hann var fréttamaður á frétta­stofu Sjón­varps RÚV 1970-1979. Hann stofnaði ásamt konu sinni KOM ehf., og var fram­kvæmda­stjóri KOM frá 1986 til 2013. Jón Hákon seldi KOM ehf síðastliðin áramót.

Jón Há­kon gegndi fjöl­mörg­um fé­lags- og trúnaðar­störf­um. Hann sat m.a. í bæj­ar­stjórn Seltjarn­ar­ness og var for­seti bæj­ar­stjórn­ar um tíma auk þess að gegna ýms­um trúnaðar­störf­um fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn. Jón Há­kon annaðist rekst­ur fjöl­miðlastöðvar­inn­ar í tengsl­um við leiðtoga­fund Reag­ans og Gor­bat­sjovs 1986.

Jóns Hákon lætur eftir sig eiginkonu sína Áslaugu Guðrúnu Harðardótt­ur og börn þeirra tvö Áslaugu Svövu og Hörð  Há­kon.