Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn fengu ekki háa einkunn hjá Jóni Hákoni Magnússyni, framkvæmdastjóra KOM, í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu Félags löggiltra endurskoðenda í morgun.

Hann sagði að fjölmiðlar hefðu brugðist í aðdraganda fjármálahrunsins  - og það kyrfilega. Sápukúlufréttir hefðu flotið út um allt og fjölmiðlafólk hefði tekið þátt í hrunadansinum. Í sjónvarpsfréttum hefði fólki verið ráðlagt að kaupa ákveðin hlutabréf og glansviðtöl, með þægilegum spurningum, hefðu verið tekin við útrásarvíkinga.

Þá hefðu viðskiptablaðamenn orðið stórstjörnur.

Ekki mikið skárri nú

Hann sagði enn fremur að fáir fjölmiðlamenn hefðu þekkingu á til dæmis rekstri eða lestri ársreikninga og að bankamenn hefðu unnið við að villa þeim sýn. Fjölmiðlar hefðu birt fréttatilkynningarnar athugasemdalaust.

Fjármálaöflin hefðu búið til fjölmiðlasamsteypur og reyndir fjölmiðlamenn hefðu verið reknir og ungir og óreyndir nýliðar ráðnir í þeirra stað á lægri launum. Sumir eigendur fjölmiðla hefðu stýrt umræðunni.

Jón Hákon sagði að fjölmiðlar væru þó ekki mikið skárri eftir fall fjármálakerfisins. Yfirborðsfrásögn réði ferðinni og hjakkað væri í sömu málunum. Þá vildi ljósvakafólkið fremur svonefnda álitsgjafa en þekkingu.

Mannlegir eins og aðrir

Hann sagði undir lok ræðunnar að fréttamenn væru mannlegir, eins og aðrir. Þeir væru undir miklu álagi og þyrftu að skila mörgum fréttum á dag á meðan starfsfélagar þeirra í nágrannalöndunum þyrftu kannski bara að skila einni frétt á viku.

Því væri mikilvægt að viðmælendur gæfu sér góða tíma til að útskýra málin fyrir þeim og gefa þeim haldgóðar bakgrunnsupplýsingar. Þannig mætti stuðla að betri fréttum.