„Mér finnst þetta bara skelfilegt mál. Ég er hreinlega miður mín. Ég get ekki orðað það öðruvísi miðað við það sem á undan er gengið,“ segir Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik, í samtali við Viðskiptablaðið um úrskurð Samkeppniseftirlitsins þess efnis að sekta fyrirtækið um 650 milljónir króna vegna brots gegn samkeppnislögum. Byko sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem fram kom að fyrirtækið hefði tekið ákvörðun um að kæra úrskurðinn til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Jón Helgi segir að með dómi Héraðsdóms Reykjaness, í sakamáli gegn starfsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar, hafi verið tekið efnislega á samkeppnismálinu. Þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ekkert verðsamráð hefði átt sér stað, heldur þvert á móti að hörð samkeppni hafi ríkt milli fyrirtækjanna. Hvetur hann þá sem áhuga hafi á málinu að lesa dóminn.

Enginn lagagrundvöllur

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kemur fram að til þess að stuðla meðal annars að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyri sé sektin, að fjárhæð 650 milljónum króna, lögð á móðurfélag Byko; Norvik. Jón Helgi segir þetta sæta furðu.

„Samkvæmt því sem okkar ráðgjafar segja okkur þá er ekki til neinn stafur fyrir því í lögum að það megi leggja á samstæðu. Í þessu máli virðist Samkeppniseftirlitið hins vegar telja sig vera hafið yfir lög og rétt, þannig að úrskurðir dómstóla hafi ekkert að segja um það. Það fer sínu fram. Þessir menn reiddu náttúrlega hátt til höggs í upphafi, með mikilli lögregluaðgerð og handtöku fólks, og ætli þeir séu ekki að reyna að klóra yfir skítinn sinn, ég veit það ekki,“ segir Jón Helgi.

Erlendu fyrirtækin hlaupa undir bagga

Aðspurður hvort fyrirtækið ráði við að greiða svo háa fjárhæð bendir Jón Helgi á að Byko hafi skilað taprekstri frá árinu 2009 að síðasta ári undanskildu þegar það hafi skilað smávægilegum hagnaði.

„Ef Byko ætti eitt að borga þetta væri það bara endastöð. En Norvik er náttúrlega stöndugt félag þannig að við reynum að klára okkur af því. Ætli við reynum ekki að fá erlendu fyrirtækin okkar til að hlaupa undir bagga með okkur meðan þetta gengur yfir því mér skilst að það sé þannig að þú verðir bara að borga. Við erum samt að láta okkar lögmenn kanna hvort að það sé hugsanlegt, á grundvelli þess sem fyrir liggur í þessu máli, að bíða með greiðsluna einhvern veginn, en ég veit ekki hvernig það gengur. Ef þessir menn eru hafnir yfir lög og rétt á maður sjálfsagt lítil tækifæri til þess,“ segir Jón Helgi.

„Eins og maður hafi lent í ræningjaflokki“

Jón Helgi segist alltaf hafa haft trú á að réttlætið sigri að lokum. „En miðað við framgöngu svona stjórnvalds þá veit maður ekki hvort það sé endilega réttlæti á Íslandi. Mér finnst þetta frekar vera eins og maður hafi lent í ræningjaflokki; að menn séu hafnir yfir lög og rétt. Við höfum aldrei efast um það frá byrjun að við værum saklaus í þessu máli.“

„Ég sit hér úti í Lettlandi á skrifstofunni minni og hér er dagur að kveldi kominn, og ég er bæði sár og reiður yfir því umhverfi sem íslenskt atvinnulíf býr við. Nú erum við nokkuð stórt fyrirtæki og þá spyr maður sjálfan sig og aðra; myndir þú vilja fjárfesta í þessu umhverfi?“ segir Jón Helgi.

Hann segist hafa verið ungur þegar hann hóf viðskipti og alltaf hafi hann talið sig gera hlutina eins rétt og hægt væri. „En svo lendir maður í þessu. Hver vill eiga viðskipti í þessu umhverfi?“