Sala Norvik á Kaupás-keðjunni er ekki liður í skuldauppgjöri, að sögn forstjórans Jóns Helga Guðmundssonar, sem löngum er kenndur við byggingavöruverslunina Byko. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í dag hefur hann ákveðið á selja Kaupás og standa yfir viðræður við sjóðinn SÍA II, sem rekinn er af Stefni, dótturfélagi Arion banka. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að margir hafi sýnt áhuga á að kaupa reksturinn. Jón Helgi segir í samtali við Viðskiptablaðið sem kemur út á morgun að hann hafi ekki viljað selja félagið til samkeppnisaðila heldur fjárfesta sem sjái fyrir sér að skrá Kaupás á markað.

Kosið um nauðasamninga Straumborgar í maí

Jón Helgi og fjölskylda hans á fjárfestingarfélagið Straumborg. Félagið átti m.a. hlut í Kaupþingi og í lettneska bankanum Norvik ásamt því að fjárfesta í olíu- og orkuiðnaði. Þá á Straumborg 22% hlut í Norvik. Félagið skuldaði 30 milljarða króna í lok árs 2008. Eigið féð var þá jákvætt. Staðan breyttist hins vegar ári síðar en verðmæti eigna í olíu- og orkugeiranum og bankanum í Lettlandi hafa lækkað verulega í verði. Ársreikningurinn frá árinu 2008 er hins vegar sá nýjasti sem liggur fyrir.

Straumborg fékk heimild til að leita nauðasamninga í mars. Fundur hefur verið boðaður með lánardrottnum sem eiga atkvæðisrétt um samningsfrumvarp Straumborgar 15. maí næstkomandi þar sem greidd verða atkvæði um nauðasamningsfrumvarpið. Fram kom í Viðskiptablaðinu 14. mars síðastliðinn flestar eignir félagsins hafi verið seldar eða búið að semja um sölu þeirra.

Á meðal lánardrottna Straumborgar eru Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki og þrotabú Glitnis auk erlendra lánastofnana. Jón sagði í samtali við blaðið í mars að unnið væri eftir ákveðnum kyrrstöðusamningi við kröfuhafa frá árinu 2009. Samningurinn rann út í janúar á þessu ári. Jón taldi nauðasamninga og stöðu Straumborgar ekki eiga að hafa áhrif á önnur félög á sínum vegum.