„Þetta fór eitthvað fyrir brjóstið á þeim,“ segir Baldur Björnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar. Jón Helgi Guðmundsson, löngum kenndur við byggingavöruverslunina Byko, fer fram á tugmilljónir króna í bætur í meiðyrðamáli hans gegn Baldri. Fyrirtaka er í máli þeirra í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

Baldur Björnsson
Baldur Björnsson

Jón vill að Baldur greiði sér tugmilljónir króna í bætur vegna skrifa hans í grein um sig og Byko í Morgunblaðið í júní í fyrrasumar. Fyrirsögn greinarinnar var „Byggingavörur á líknardeild bankanna“ og hélt Baldur því fram að Byko væri í gjörgæslu hjá Arion banka vegna skulda Jóns Helga. Baldur studdist við upplýsingar sem fram koma í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um 64 milljarða króna skuldir félaga Jóns Helga gagnvart bankanum. Jón Helgi var einn af stórum hluthöfum í Kaupþingi fyrir hrun og á meðal helstu lántakenda hans.

Ekki liggur nákvæmlega hversu háar bætur fer fram á. Baldur segir þær nema 30 til 50 milljónum króna. Þegar Viðskiptablaðið ræddi við Jón Helga á dögunum þá sagðist hann ekki muna upphæðina, en taldi hana lága.

Þetta er fjarri því í fyrsta skiptið sem þeim Baldri og Jóni Helga lendir saman síðustu ár. Þá hefur Baldur verið gagnrýninn á eignarhald bankanna á byggingavörumarkaði en hann kærði ríkið til Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir ólögmæta samkeppnishindrum á markaðnum eftir að Landsbankinn tók Húsasmiðjuna yfir.

„Það er ekki hægt að skulda 64 milljarða. Það er ókleifur veggur. Lögmaður Jóns Helga hringdi í mig strax daginn eftir að greinin birtist. Hann bauð mér að taka þetta til baka og biðast opinberlega afsökunar vegna þess að eigandi Byko væri Norvik og að það ætti ekki í neinum vandræðum. Þetta er ákveðið tæknilegt atriði,“ segir Baldur í Múrbúðinni og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk geti talað um hrunið án þess að eiga á hættu að verða kært fyrir það.

Jón Helgi Guðmundsson
Jón Helgi Guðmundsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)