Eyrir Invest ehf. hefur aukið eigið fé félagsins með útgáfu og sölu nýs hlutafjár að fjárhæð 2,3 milljarðar króna. Í tilkynningu félagsins kemur fram að eftir hlutafjáraukninguna er eigið fé félagsins um 9,5 milljarðar króna og heildareignir um 16 milljarðar. Eiginfjárhlutfall er sterkt og allar skuldir eru fjármagnaðar til langs tíma, m.a. með skuldabréfaútboði fyrr á árinu.

Auk eldri hluthafa sem taka þátt í hlutafjáraukningunni koma Jón Helgi Guðmundsson og Steinunn Jónsdóttir inn sem nýjir hluthafar. Ný skipting eignarhluta er eftirfarandi:

Árni Oddur Þórðarson og Þórður Magnússon 67,6 %
Jón Helgi Guðmundsson og Steinunn Jónsdóttir 17,5 %
Sigurjón Jónsson 14,9 %

Í tilkynningu félaghsins kemur fram að með hlutafjáraukningunni er Eyrir Invest betur í stakk búið til að takast á við ný verkefni og styðja félög sem Eyrir á umtalsverða hluti í til frekari uppbyggingar og vaxtar. Eyrir Invest fjárfestir í félögum sem hafa burði til að vera leiðandi á sínu sviði á heimsvísu og ná þannig hlutfallslegri stærðarhagkvæmni til hagsauka fyrir viðskiptavini, starfsmenn og hluthafa.

2/3 eigna Eyris Invest eru bundnar í hlutabréfum í Marel og Össuri en félagið á um 30% hlut í Marel og um 15% í Össuri.
1/3 eigna félagsins eru hlutabréf í nokkrum skráðum félögum á verðbréfamörkuðum á Norðurlöndum.