*

föstudagur, 3. apríl 2020
Innlent 18. desember 2019 10:44

Jón hringdi kauphallarbjöllunni í New York

Tilefnið var að 20 ár eru liðin frá því hlutabréf Össurar voru skráð í kauphöllina.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í Kauphöllinni í New York.
Aðsend mynd

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, hringdi á mánudaginn kauphallarbjöllunni frægu í Kauphöllinni í New York. Með í för voru nokkrir af helstu stjórnendum Össurar. Tilefnið var að 20 ár eru liðin frá því hlutabréf Össurar voru skráð í kauphöllina. Bjallan á sér langa sögu en hún var fyrst notuð árið 1870 og var þá notast við kínverskt gong. Bjöllunni hefur síðan verið hringt við opnun og lokun markaðarins dag hvern og er hefð fyrir því að bjóða forsvarsmönnum fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllina að fagna áföngum sínum með þessum hætti. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í stuttri ræðu við þetta tilefni lýsti Jón ánægju sinni með að hafa náð þessum merka áfanga í sögu fyrirtækisins sem skráðs fyrirtækis: „Ég vil þakka 4.000 starfsmönnum Össurar á heimsvísu kærlega fyrir þeirra þátt í þessum áfanga. Árangur fyrirtækis eins og Össurar má helst rekja til óþreytandi metnaðs starfsfólks fyrirtækisins til nýsköpunar og ástríðu fyrir að hjálpa fleirum að njóta lífsins til fulls. Það verður spennandi að sjá hvað næstu tveir áratugir bera í skauti sér í þróunarstarfi Össurar."

Forstjórinn var á gömlum heimaslóðum í New York, en áður en hann hóf störf hjá Össuri starfaði hann sem viðskiptafulltrúi Íslands í New York.