Jón Sigurðsson var með 927 þúsund Bandaríkjadali í föst laun á síðasta ári. Það gera 118,7 milljónir króna á tólf mánaða tímabili, að meðaltali 9,9 milljónir á mánuði. Árangurstengdar greiðslur og hlunnindi hífa launin upp í næstum 1,5 milljónir dala á mánuði, 184,5 milljónir íslenskra króna sem skila Jóni 15,4 milljónum króna í mánaðarlaun. Laun Jóns hafa lækkað á milli ára og munar þar 50 þúsund dölum, jafnvirði 6,4 milljóna króna á árinu öllu.

Forstjórinn sá launahæsti

Sjö lykilstjórnendur fyrirtækisins að Jóni meðtöldum eru með föst laun, að því er fram kemur í ársskýrslu Össurar . Laun þessarar sjö einstaklinga námu rétt rúmum þremur milljónum dala, jafnvirði rúmra 385 milljóna króna. Hlunnindi og aðrar sporslur bæta 1,2 milljónum dala við og fara heildarlaun sjömenninganna því upp í rúmar 4,2 milljónir dala, jafnvirði 542 milljóna króna á ári.

Jón er launahæsti starfsmaður fyrirtækisins en þeir sem næstir honum koma eru hálfdrættingar í launum. Þar af er Hjörleifur Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar, með 470 þúsund dali í laun á síðasta ári, jafnvirði 60 milljóna króna. Það gera fimm milljónir á mánuði. Hlunnindi og aðrar greiðslur upp á 157 þúsund dali bættust við launin í fyrra og námu heildarlaun hans því 627 þúsund dölum, jafnvirði 80 milljóna króna. Aðrir eru með lægri laun.

Meðallaunin um 600 þúsund

Heildarlaun stoðtækjafyrirtækisins námu rúmum 111,4 milljónum dala á síðasta ári. Það gera tæpa 13,4 milljarða íslenskra króna. Starfsmenn voru að meðaltali 1.860 og gera það um 600 þúsund króna meðallaun á mánuði.