Jón Ingi Björnsson hefur verið ráðinn nýr sviðsstjóri Rekstrar- og þjónustusviðs hjá Þekkingu og þá tekur hann einnig sæti í framkvæmdastjórn Þekkingar. Nýtt skipurit tók gildi hjá Þekkingu 1. júní síðastliðinn og var þjónustu-, rekstrar- og ráðgjafasvið sameinuð í eitt svið undir nafninu Rekstrar- og þjónustusvið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Jón Ingi hefur sinnt starfi ráðgjafa hjá Þekkingu undanfarna mánuði og leitt fjölda umbótaverkefna. Áður gegndi Jón Ingi stöðu forstöðumanns tækniþjónustu hjá Íslandsbanka í 13 ár. Þá var Jón Ingi einn stofnenda Álits, síðar ANZA, og þar áður starfaði hann sem rekstrarstjóri hjá ISAL. Jón Ingi er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og BA gráðu í sálfræði frá sama skóla.

„Það er mikill fengur fyrir Þekkingu og viðskiptavini okkar að fá Jón Inga inn í framkvæmdastjórn félagsins. Þar verður hann mikilvægur liðsmaður og mun yfirgripsmikil þekking hans og reynsla nýtast vel," segir Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri Þekkingar, í tilkynningu.