Nýr forstjóri hefur verið ráðinn til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Jón Ingvar Pálsson lögfræðingur tók við starfinu 1. ágúst. Hilmar Björgvinsson fráfarandi forstjóri lét nýlega af störfum fyrir aldurs sakir.

Jón Ingvar hefur starfað hjá Innheimtustofnun í níu ár, nú síðast sem yfirlögfræðingur stofnunarinnar. Jón Ingvar er lögfræðingur að mennt frá Háskóla íslands með mastersgráðu (LL.M.) frá Duke University í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hann er kvæntur Eygló Jónsdóttur og eiga þau samtals fimm uppkomna syni.

Alls sóttu 32 um stöðu forstjóra Innheimtustofnunar þegar hún var auglýst.

Innheimtustofnun sveitarfélaga starfar í þágu barna. Hlutverk stofnunarinnar er að innheimta meðlög hjá meðlagsskyldum foreldrum. Innheimtustofnun skilar Tryggingastofnun ríkisins því fé sem innheimtist mánaðarlega. Þessir fjármunir ganga upp í meðlagsgreiðslur sem Tryggingastofnun hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Hlutverk Innheimtustofnunar er afar mikilvægt og hefur stofnunin yfir að ráða öllum nauðsynlegum innheimtuúrræðum til að gera henni kleyft að tryggja sem best hag umbjóðenda sinna sem eru börn foreldra sem rétt eiga á meðlagsgreiðslum.

Hjá Innheimtustofnun starfa alls 19 manns og er stofnunin til húsa að Lágmúla 9  í Reykjavík. Einnig er Innheimtustofnun með starfstöð á Flateyri en þar eru 3 starfsmenn