Jón Skaftason, framkvæmdastjóri Strengs sem og fjárfestinga hjá 365 og er á leið inn í stjórn fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns í stað Þórarins Arnar Sævarssonar, eins eigenda fasteignasölunnar RE/MAX. Tilkynnt var um frambjóðendur til stjórnar félagsins í dag fyrir aðalfund félagsins á mánudaginn þann 19. apríl , en sjálfkjörið er í stjórnina.

Þórarinn hefur hingað til verið stjórnarformaður Kaldalóns en hann á einnig sæti í stjórn Skeljungs og er stór hluthafi bæði í Kaldalóni og Skeljungi. Jón er lögfræðingur að mennt og er fyrir stjórnarformaður danska húsgagnaframleiðandans Nor11 og breska smásölufélagsins Sleep Solutions Limited sem 365 eiga stóran hlut í.

Helen Neely, framkvæmdastjóri og eigandi Konkrit ehf. og Gunnar Hendrik B. Gunnarsson, eigandi gleraugnaverslunarinnar Prooptik. sitja áfram í stjórn Kaldalóns sem skipuð er þremur einstaklingum. Steinþór Ólafsson, verður áfram í varastjórn en Gunnar Sverrir Harðarson, viðskiptafélagi Þórarins og annar eigenda að RE/MAX hverfur úr varastjórninni.

Kaldalón vinnur að byggingu 700-800 íbúða en það hagnaðist um 371 milljón á síðasta ári.

Strengur Holding er stærsti hluthafi Kaldalóns með 28,8% hlut. Þá á Strengur einnig ríflega helmingshlut í Skeljungi. Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Strengs og Skeljungs.

Að Streng standa þrír fjárfestahópar, félag í meirihlutaeigu 365 sem Ingibjörg Pálmadóttir á, félag í meirihlutaeigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur og félag í eigu Gunnars Sverris og Þórarins Arnar.