Jón Jósafat Björnsson hefur keypt fjórðungshlut í Dale Carnegie á Íslandi af Unni Magnúsdóttur, aðaleiganda félagsins. Jón Jósafat hefur einng samið um kauprétt á öðrum 25% hlut í félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu um kaupin.

„Jón Jósafat tekur við sem framkvæmdastjóri Dale Carnegie og Unnur verður stjórnarformaður. Hún verður áfram starfandi í fyrirtækinu og sér um fjármál og gæðamál, þar á meðal þjálfun leiðbeinenda. Jón Jósafat hefur annast sölu- og markaðsmál Dale Carnegie undanfarin tvö ár.

Dale Carnegie á Íslandi hefur gengið afar vel að undanförnu og jókst velta þess um 54% á milli ára. Um 1.800 manns hafa sótt námskeið hjá félaginu á árinu. Aukning varð í öllum þjónustugreinum, mest þó á fyrirtækjamarkaði. Sérsniðin námskeið vega þar mest, en Dale býður upp á 150 mismunandi námseiningar sem hægt er að raða saman að vild.

Dale Carnegie á Íslandi er rekið með viðskiptasérleyfi frá Dale Carnegie & Associates. Alls fer starfsemi Dale Carnegie fram í 80 löndum,“ seigr í tilkynningu.