Jón Karl Ólafsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sagði í ræðu sinni á Iðnþingi að sé horft tíu ár fram í tímann er mjög ólíklegt að íslenska krónan verði enn við gildi. Hann segir að þá verði líklega aðeins um fimm til sex gjaldmiðlar í heiminum.

Hann sagði að Íslendingar stjórni ekki hagsveiflum sínum sjálfir heldur komi aðrir aðilar þar að og vísaði í alþjóðasamfélagið. Þá sagði Jón Karl að á næstu árum yrði tvöföldun á gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar.

Hins vegar myndi evran og innganga í ESB ekki leysa öll vandamál. Það myndi þó engu að síður færa stöðugleika upp að vissu marki, sértaklega fyrir útflutningsgreinar.

Jón Karl sagði að ekki sé talið til tekna öll áhrif ferðaþjónustunnar. Þannig segir hann að á síðasta ári hafi verið selt bensín á bílaleigubíla fyrir um 200 milljónir sem ekki séu taldar til tekna af ferðaþjónustu. Í ræðu sinni nefndi Jón Karl að einn af vanda ferðaþjónustunnar væri hátt verðlag á Íslandi.

Stefnumótun myndi slá á óvissu

Jón Karl sagði ef stefnt yrði að því að ganga í ESB myndi það hugsanlega slá á þá óvissu sem einkenni fjármálamarkaði. Hann tók þó fram að SAF hefði ekki tekið afstöðu um inngöngu og óvíst væri að Ísland myndi, „enda þar inni,“ sagði Jón Karl að lokum.

Hann sagði ferðaþjónustu vera eina af undirstöðugreinum þjóðarinnar. Ferðaþjónustan er  útflutningsgrein og lýtur þar sömu lögmálum og þar gilda, sagði Jón Karl.

Jón Karl sagði að þrátt fyrir að ferðaþjónustan sé ekki að taka erlend lán í miklu magni hafi gengissveiflur mikil áhrif. Hann sagði að miðað við veltu ferðaþjónustunnar megi búast við því að gengissveiflur hafi slæm áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu og nefndi sérstaklega minni fyrirtæki.

Hann sagði hagstjórn á Íslandi ekki hafa nein tæki til að eiga við gjaldeyrissveiflur. Þá minnti Jón Karl á að íslenska krónan væri ekki eini gjaldmiðillinn sem sveiflast. Hins vegar væru sveiflur hér á landi almennt stærri og erfitt að væri að spá fyrir þeim sveiflum.