Starfsmönnum Travelco Nordic var tilkynnt í morgun að Arion banki hefði tekið yfir rekstur Travelco Nordic sem er móðurfélag ferðaskrifstofa Andra Más Ingólfssonar. Jón Karl Ólafsson, fyrrum forstjóri Primera Air og Icelandair, er nýr stjórnarformaður Travelco Nordic. Frá þessu er greint á vef Túrista .

„Ætlun Arion banka er að selja fyrirtækin eins hratt og auðið er samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Aðspurður um hversu langan tíma það gæti tekið þá segir Jón Karl, í samtali við Túrista, að erfitt sé að segja til um það en búast megi við sex til tólf mánaða söluferli. „Ef það þarf lengri tíma þá verður það að vera svo,” segir Jón Karl."

„Jón Karl lét af störfum hjá Primera Air árið 2014 en nokkru síðar var rekstri flugfélagsins umbylt og fókusinn fór frá leiguflugi yfir í áætlunarflug. Sú breyting gekk hins vegar ekki upp og félagið fór í þrot síðastliðinn október. Í framhaldinu færði Andri Már Ingólfsson rekstur ferðaskrifstofa Primera Travel Group yfir í danskt dótturfélag. Það félag hefur Arion banki nú tekið yfir en bankinn tapaði um þremur milljörðum á falli Primera Air," segir á vef Túrista.