Í Viðskiptaþættinum sem hefst klukkan 16 á Útvarpi Sögu FM 99,4 verður rætt við Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands. "Afkoman hefur verið í takt við væntingar og það stefnir í að hún verði góð á árinu," þetta segir Jón Karl í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun en markaðurinn hefur vaxið um 15-16% á árinu og aukning hefur verið í flugi til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða á árinu.

Upp úr klukkan hálf fimm ætlum við að huga að hlutabréfamarkaðnum og heyra í forstöðumanni Greiningar Íslandsbanka - Ingólfi Bender og heyra hvernig stemningin er á markaðnum.

Við ljúkum þættinum í dag með því að kynna okkur starfsemi fyrirtækis sem heitir Stiki, Ragnheiður Kristín Guðmundsdóttir - er markaðsstjóri þess en við ætlum að spjalla við hana um upplýsingar, verðmæti þeirra og upplýsingaöryggi en Stiki hefur framleitt íslenskan þekkingarhugbúnað sem hefur verið notaður til áhættustýringar.