Jón Karl Ólafsson tekur við sem forstjóri JetX/Primera Air frá og með 3.mars næstkomandi.

Jón Karl mun jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn Primera Travel Group og verður einn af lykilmönnum í  stjórnendateymi félagsins. Ingimar Ingimarsson, sem verið hefur forstjóri JetX/Primera Air, tekur sæti stjórnarformanns í félaginu.

„Mér líst gríðarlega vel á þetta fyrirtæki enda hefur Primera verið í spennandi verkefnum bæði í flugrekstri og ferðaskrifstofurekstri. Það er mikill vöxtur framundan og og ég hlakka til að takast á við þau verkefni með góðu samstarfsfólki,” segir Jón Karl Ólafsson

JetX/Primera Air er í dag með 6 flugvélar í rekstri og stefnir að því að reka 10 - 12 vélar á næsta ári. Flestar vélarnar sinna flugi fyrir dótturfyrirtæki Primera Travel Group, en félagið á ferðaskrifstofurnar Budget Travel á Írlandi, Heimsferðir og Terranova á Íslandi auk fimm ferðaskrifstofa á hinum Norðurlöndunum.

Jón Karl var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands frá byrjun árs 1999 til ársins 2004. Það ár varð hann forstjóri Icelandair og í framhaldi af því forstjóri Icelandair Group frá árinu 2005 til ársloka 2007. Jón Karl hefur verið formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2003, setið í framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands, m.a. sem formaður frá 2003-2005 og auk þess setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, m.a. Útflutningsráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Jón Karl Ólafsson er fæddur árið 1958 og er kvæntur Valfríði Möller, hjúkrunarfræðingi og eiga þau fjögur börn.